Inngangur að sögnum
Sagnir eru kjarni setningarinnar í íslensku. Með öðrum orðum snýst íslensk setning næstum því alltaf um sögn:
Hvað heitir þú?
Kötturinn skríður undir borðinu.
Mælst er til þess að gestir yfirgefi laugina 10 mínútum eftir lokun.
Setning getur einfaldlega verið sögn sem stendur ein:
Rignir?
Beyging
Í íslensku beygjast sagnir eftir:
- Tíð (nútíð, þátíð)
- Persónu og tölu (fyrsta, önnur og þriðja persóna; eintala, fleirtala)
- Hætti (framsöguháttur, viðtengingarháttur)
- Mynd (germynd, miðmynd, þolmynd)
Ásamt þessum beygingarmyndum eru fleiri myndir sagna:
- Nafnháttur – Þetta er sagnarmyndin sem finnst í orðabókinni. Nafnháttur flestra sagna endar á -a (tala, sofa, gala) en það er til lítill hópur sagna þar sem nafnhátturinn endar á -á (fá, gá, spá). Það er ein sögn sem fær -o í nafnhætti (þvo) og tvær sem fá -u (munu, skulu). Nafnháttarmerkið að er oft notaður með sögn í nafnhætti en þetta ræðst af samhenginu.
- Lýsingarháttur nútíðar – Endar alltaf á -andi. Lýsingarháttur nútíðar er sjaldnast alvöru sagnarmynd (barnið er sofandi í vöggunni). Hann er notaður oftar sem lýsingarorð eða atviksorð (til dæmis, ég fer hjólandi í vinnu).
- Sagnbót – Notuð á eftir hafa eða vera til að mynda liðna tíð (til dæmis, ég hef farið til Grikklands) og á eftir ákveðnum hjálparsögnum svo sem geta. Allar sagnir nema munu og skulu hafa sagnbót. Sagnbót er nákvæmlega eins og hvorugkynsmynd lýsingarháttar þátíðar en örfáar sagnir hafa ekki lýsingarhátt þátíðar. Fyrir reglur um hvernig á að mynda sagnbót, sjá Lýsingarhátt þátíðar.
- Boðháttur – Notaður til að gefa skipun eða leiðbeiningar. Í boðhættinum eru þrjár myndir: eintala (komdu), fleirtala (komið) og stýfður boðháttur (far, mjög sjaldan notaður). Sjá Boðhátt fyrir reglur.
Ef þú þekkir og skilur hugtök eins og nútíð, þriðja persóna og viðtengingarháttur þarftu ekki að lesa meira á þessari síðu.
Tíð
Í íslensku eru einungis tvær sannkallaðar tíðir: nútíð og þátíð. Þetta eru einu tíðirnar sem eru myndaðar með beygingum. Í sumum málfræðibókum er hefð fyrir að nota orðið „tíð“ um setningargerðir með hjálparsögnum eins og munu eða hafa en stranglega séð er slík setningargerð ekki tíð. Þess vegna er það orð ekki notað um svona setningargerð hér. Sjá Hjálparsagnir fyrir nánari umfjöllun um þetta.
Tíðarmyndun er ólík eftir sagnarflokkum. Til dæmis:
Nafnháttur | Nútíð | Þátíð |
---|---|---|
að tala | ég tala | ég talaði |
að keyra | ég keyri | ég keyrði |
að velja | ég vel | ég valdi |
Allar sagnir í töflunni fyrir ofan eru veikar. Þetta sést á því að þær fá allar tannhljóðsendingu í þátíð. Með öðrum orðum inniheldur þátíðarendingin einhvers konar tannhljóð, þ.e. d, ð eða t.
Þátíð annarra sagna er mynduð með hljóðvarpi. Slíkar sagnir heita sterkar sagnir.
Nafnháttur | Nútíð | Þátíð |
---|---|---|
að bíta | ég bít | ég beit |
að bjóða | ég býð | ég bauð |
að detta | ég dett | ég datt |
Persóna og tala
Íslenskar sagnir hafa þrjár persónur en hver þeirra er til í eintölu og fleirtölu:
- Fyrsta – eintala: ég-myndin; fleirtala: við-myndin
- Önnur – eintala: þú-myndin; fleirtala: þið-myndin
- Þriðja – eintala: hann/hún/hán/það-myndin; fleirtala: þeir/þær/þau-myndin
Fyrir umfjöllun um hvernig á að nota þessi fornöfn, sjá Persónufornöfn.
Það eru sex mögulegar endingar sem tákna mismunandi samsetninga persónu og tölu:
Persóna | Eintala | Fleirtala |
---|---|---|
1. | ég prjóna | við prjónum |
2. | þú prjónar | þið prjónið |
3. | hún prjónar | þær prjóna |
Endingarnar í töflunni fyrir ofan eru fyrir 1. flokks veikar sagnir. Saman mynda þessar endingar beygingardæmi. Mismunandi beygingardæmi eru í mismunandi flokkum sagna.
Innan hvers flokks eru mismunandi beygingardæmi fyrir ólíkar tíðar og myndir (þ.e. germynd eða miðmynd). Sjá síðurnar um veikar og sterkar sagnir fyrir umfjöllun um þetta.
Háttur
Íslenskar sagnir hafa tvo hætti: framsöguháttur og viðtengingarháttur. Í hverjum hætti eru beygingardæmi fyrir nútíð og þátíð.
Framsöguháttur
Framsöguhátturinn er „venjulegi“ hátturinn. Hann er notaðar til að tala um staðreyndir:
Það eru margar kindur uppi í sveit.
Lilja ætlar að fara í sund á morgun.
Ferðamenn hata hákarl.
Viðtengingarhátturinn
Viðtengingarhátturinn er notaður til að tala um einhvers konar ímyndað ástand, hugsun, trú, skoðun, ósk, löngun, von eða skyldu:
Það væri betra ef það rigndi ekki.
Krakkarnir halda að mamma komi heim í fyrramálið.
Ég óska þess að hann væri enn á lífi.
Mikilvægt er að gluggarnir séu lokaðir.
Fyrir nánari umfjöllun um þetta, sjá Viðtengingarhátt.
Mynd
Íslenskar sagnir hafa tvær myndir sem eru merktar með beygingum: germynd og miðmynd. Miðmyndin er séríslenskt fyrirbæri.
Germyndin er venjulega myndin.
Bryndís kaupir nýtt hús.
Í íslensku er líka þolmynd en hún er mynduð með sögninni vera eða verða ásamt lýsingarhætti þátíðar en ekki með beygingarendingum. Sjá Þolmynd fyrir útskýringu á þessu.
Nýtt hús var keypt.
Miðmynd
Miðmyndin hefur nokkur ólík hlutverk. Hún getur verið notuð til að tjá gagnkvæmni eða afturbeygingu eða komið í stað þolmyndar. Sumar sagnir fá breytta merkingu í miðmynd. Aðrar sagnir eru eingöngu til í miðmynd.
Við sjáumst í næstu viku!
Hermaðurinn meiddist í stríðinu.
Refurinn sést ekki í myrkrinu.
Mér finnst bókin skemmtileg.
Bartosz og Paweł ferðuðust um allt landið.
Miðmynd allra sagna endar á -st og hún er því auðþekkt.
Fyrir nánari umfjöllun um beygingu og notkun miðmyndar, sjá Miðmynd.